Stjórn foreldraráðs 2022-2023

 Dana Rún Heimisdóttir danaheimis@gmail.com
 Ísak Hilmarsson isak.hilmarsson@gmail.com
 Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir kollath87@gmail.com

 

Lög um leikskóla

11. gr. Foreldraráð.
 Kjósa skal foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla.
 Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

 

Starfsreglur foreldraráðs leikskólans Arnarsmára

  1. Foreldraráð starfar eitt skólaár í senn þ.e. frá 1.október til og með 31. ágúst ár hvert og fundar tvisvar sinnum á önn eða eftir þörfum.
  2. Fulltrúar í ráðinu og starfsreglur þess skulu kynnt á heimasíðu leikskólans.  Á fyrsta fundi skal formaður og ritari vera skipaðir.   Leikskólastjóri skal upplýsa ráðið um hver þau mál sem snert geta starfsemi skólans og ráðið fjallar um. Ráðið skal halda fundargerðabók og sjá til þess að fundargerðir séu aðgengilegar á heimasíðu skólans.
  3. Leitast skal við að í ráðinu séu foreldrar barna á mismunandi aldursstigum, þannig að a.m.k. einn fulltrúi haldi áfram næsta ár á eftir til að tryggja samfellu í starfi ráðsins.
  4. Í upphafi hvers skólaárs óskar leikskólastjóri eftir nýjum framboðum.  Skal það gert á foreldrafundi.
  5. Foreldraráð starfar með leikskólastjóra og skal vera tengiliður við aðra foreldra. Foreldraráð skal beita sér fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum í samskiptum við foreldra, leikskólastjóra og bæjaryfirvöld.
  6. Á fundi foreldraráðs við lok starfstímabilsins gerir formaður þess nýjum foreldraráðs meðlimum grein fyrir starfi ráðsins.
  7. Helstu verkefni: Ráðið skal vera umsagnaraðili um skólanámskrá, skóladagatal og áætlun vetrarins með leikskólastjóra.  Bera skal skóladagatal saman við skóladagatöl grunnskólanna m.t.t. skörunar við starfsdaga og aðra frídaga. Ráðið skal einnig fjalla um ábendingar frá foreldrum, sumarlokanir leikskólanna og aðrar stórar ákvarðanir sem hafa áhrif á starf skólans.
  8. Leikskólastjóri skal upplýsa foreldraráð um öll meiriháttar mál sem hafa áhrif á starfsemi leikskólans og gefa þeim þannig kost á að fjalla um þau. 
  9. Komi upp tilvik sem foreldraráð telur að þarfnist umræðu í öllum foreldrahópnum skal ráðið boða til fundar með foreldrum þar sem málin skulu rædd og lýðræðislegar ákvarðanir teknar. Foreldraráð fylgir þeim ákvörðunum síðan eftir. 
  10. Fulltrúar í foreldraráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeim er trúað fyrir út af setu þeirra í foreldraráði og varða fjölskylduaðstæður einstakra barna, hegðum þeirra og heilsufar eða önnur viðkvæm atriði sem eðlilegt er að fari leynt.
  11. Starfsreglur þessar skulu endurskoðaðar í lok hvers skólaárs. Til stuðnings sem og nánari útfærslu starfsreglna þessara er vísað í 11. grein laga um leikskóla.