Sími 441 5300

Um skólann

Um skólann

Frumkvæði, vinátta og gleði

Leikskólinn Arnarsmári er opinn fimm deilda leikskóli fyrir eins til fimm ára börn. Deildirnar heita Engi, Bakki, Brekka, Akur og Gulldeild og hver árgangur á sína deild.
Deildirnar samnýta fjögur svæði í skólanum:
Í Leiksmiðju er boðið upp á hlutverkaleiki af ýmsu tagi.
Í Holukubbum  fara fram byggingarleikir og oft er boðið upp á auka efnivið.                                            
Í Hreyfisal fer fram bæði skipulögð og frjáls hreyfing.                                          
Í Listasmiðju er boðið upp á skapandi starf af ýmsum toga, bæði skipulagt og frjálst.

Frumkvæði, vinátta og gleði eru einkunnarorð skólans. Frumkvæði ýtir undir skapandi hugsun og gerir börnunum kleift að leita sjálf lausna í þeim verkefnum sem þau fást við hverju sinni. Það hjálpar þeim að leysa sjálf deilur á jákvæðan hátt. Vinátta, samkennd, góð samskipti, samhjálp og samvinna eru þættir sem ýtt er undir og lögð er áhersla á. Gleði er þriðja einkunnarorð skólans. Börn eru í eðli sínu glöð. Með áherslu á frumkvæði og vináttu, skýrar reglur og aga er skapað öruggt umhverfi, sem eykur  vellíðan og ánægju einstaklingsins og hópsins í heild. Í tengslum við einkunnarorð skólans er lögð áhersla á iðkun dyggða. Unnið er sérstaklega með hverja dyggð u.þ.b. sex vikur í senn þar sem börn og kennarar tileinka sér þær. Þau ræða saman um dyggðirnar, syngja lög og lesa bækur sem tengjast þeim.

Í leikskólastarfinu mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild þar sem börnum er sýnd virðing og umhyggja. Unnið er eftir uppeldisstefnu sem nefnist Uppbygging sjálfsaga-Uppeldi til ábyrgðar, sem miðar að því að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga.

Frjáls sjálfsprottinn leikur er kjarninn í öllu starfi Arnarsmára og er honum gefinn góður tími. Leikurinn er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Lögð er áhersla á opinn efnivið sem ýtir undir ímyndunarafl barnanna, þ.e. skapandi leikefni sem gefur ekki aðeins eina lausn.

Útinám/útivera: Daglega er mikil útivera í Arnarsmára. Hún býður upp á góða hreyfingu, er börnum holl, eykur hreysti og mótstöðuafl. Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms; allt sem hægt er að læra inni er einnig hægt að læra úti. Börnin komast í meiri tengsl við náttúruna og læra að bera virðingu fyrir umhverfinu. Útinámið  tengist gjarnan því námsefni/þema sem verið er að vinna með í skólanum hverju sinni. Öll börn í Arnarsmára fara a.m.k. í eina vettvangsferð í viku.

Arnarsmári  er Grænfánaskóli og er því mikið í endurvinnslu og umhverfisvernd. „Við berum öll virðingu fyrir sjálfum okkur og náttúrunni og sýnum það í verki.“                                      

                              

Þetta vefsvæði byggir á Eplica