Kynni barnsins af náttúrunni eru þýðingarmikil fyrir þroska þess. Mikilvægt er að börn skynji og uppgötvi náttúruna af eigin raun og læri að njóta hennar sér til yndisauka. Í Arnarsmára er stuðlað að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og náttúruvernd og þeim er séð fyrir fjölbreyttum möguleikum á að kynnast henni sem og veðrinu og árstíðunum í fjölbreytileika sínum. Í umhverfinu verða sífelldar breytingar og þá geta óvæntar aðstæður komið upp. Börnin kafa dýpra í viðfangsefnin, leita nýrra svara og öðlast mikilvæga þekkingu á náttúru og umhverfi. Tækifæri barna til að umgangast náttúruna hafa minnkað á síðari árum og útivistarsvæði eru flest manngerð, bæði við heimili og skóla. Með útinámi fá börnin fleiri tækifæri til að kynnast umhverfinu. Í Arnarsmára er þema bæði að vori og hausti um árstíðarnar þar sem börnin læra um þær allar á fjölbreyttan hátt. Hver árgangur á sér ákveðinn stað í náttúrunni þar sem hann velur sér tré og heimsækir það reglulega til að fylgjast með árstíðabundnum breytingum. Frá Arnarsmára er mikið og fagurt útsýni og er athygli barnanna vakin á því. Á lóðinni er matjurtagarður sem hlúð er að og fylgst með sprettu og uppskorið ríkulega að hausti. Einnig er á lóð skólans útieldstæði sem ýmist er notað til útieldunar eða kveiktur er varðeldur. Náttúrufræðistofa er heimsótt öðru hverju og farin er sveitaferð að vori. Rætt er við börnin um umhverfisvernd og þau hvött til að ganga vel um umhverfið og náttúruna.

                                   Umhverfissáttmáli Arnarsmára:

   Við berum öll virðingu fyrir sjálfum okkur og náttúrunni og sýnum það í verki!

Markmið Arnarsmára

Heimsmarkmiðin