Til foreldra


Í Arnarsmára er lögð áhersla á að samstarf heimilis og skóla byggi á gagnkvæmum skilningi og virðingu fyrir viðhorfum og þekkingu hverra annarra. Samstarf þetta byggir á þeirri forsendu að foreldrar beri meginábyrgð á uppeldi barna sinna. Mikilvægt er að þessir aðilar geti treyst hver öðrum, deilt sjónarmiðum sínum og tekið sameiginlegar ákvarðanir er varða börnin.

Í Arnarsmára er tekið vel á móti hverju barni svo það finni að það sé velkomið í skólann. Barnið þarf að upplifa öryggi og það viðmót sem það mætir getur haft úrslitaþýðingu varðandi góð samskipti og tengsl. Þegar barnið byrjar í aðlögun er lagður grunnur að gagnkvæmum kynnum, trausti og virðingu á milli foreldra og kennara.

Skólinn leggur áherslu á að fullur trúnaður ríki um allar upplýsingar er varða börnin og foreldra þeirra. Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu. Allt starfsfólk leikskóla undirritar sérstakt þagnarheit sem helst þó látið sé af starfi. 

Ef kennarar telja að líkamlegum og/eða andlegum þörfum barns sé ekki sinnt, ber þeim að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum Kópavogsbæjar sbr. 17. gr. laga um málefni barna og ungmenna.
Deildarstjóri boðar ávallt foreldra barna í samtal sex til átta vikum eftir að barnið byrjar í leikskólanum eða flyst milli deilda.  Deildarstjórar og/eða kennarar bjóða foreldrum samtal tvisvar á ári og oftar ef þörf krefur. Í foreldrasamtölum gefst tækifæri til að spyrja spurninga og veita upplýsingar um barnið. Einnig geta foreldrar haft samband símleiðis við kennara eða með tölvupósti.

Tilgangur foreldrafunda er að miðla upplýsingum um uppeldisstarfið í skólanum. Skólanámskrá og aðrar áætlanir eru kynntar og ræddar og skipst er á skoðunum um leikskólauppeldi og þátttöku foreldra í skólastarfinu. Foreldrafundur með öllum foreldrum er haldinn að hausti og þar er starfið kynnt.