Hér er kynningarbæklingur fyrir foreldra.

Gagnlegt

Mikilvægt er að virða dvalartíma barnsins því vinnutími starfsmanna er skipulagður með tilliti til hans. Ef óskað er eftir breytingu á dvalartíma er sótt um það hjá leikskólastjóra.

Útivera/Útinám

Daglega er mikil útivera í Arnarsmára. Hún býður upp á góða hreyfingu, er börnum holl, eykur hreysti og mótstöðuafl. Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms; allt sem hægt er að læra inni er einnig hægt að læra úti. Börnin komast í meiri tengsl við náttúruna og læra að bera virðingu fyrir umhverfinu. Útinámið tengist gjarnan því námsefni/þema sem verið er að vinna með í skólanum hverju sinni. Öll börn í Arnarsmára fara a.m.k. í eina vettvangsferð í viku. Börnin læra umferðarreglurnar og þau klæðast endurskinsvestum í ferðunum sem eykur öryggi þeirra í umferðinni.

Klæðnaður

Mikilvægt er að klæðnaður barnanna sé þægilegur og hæfi veðri. Nauðsynlegt er að merkja fatnað barnanna svo að hann týnist síður. Fyrir ofan hvert hólf er fatakassi þar sem aukaföt barnanna eru geymd. Foreldrar koma með fötin sem eiga að vera í hólfum barnanna á mánudögum og tæma hólfin á föstudögum. Sökum plássleysis á ekki að skilja töskur barnanna eftir í leikskólanum.

  • Þau föt sem eiga að vera í hólfinu eru: Kuldagalli,pollagalli, úlpa, húfa,stígvél, kuldaskór, hlý peysa, strigaskór, vettlingar og ullarsokkar.
  • Fötin sem eiga að vera í fatakassanum eru: Nærföt, sokkar, sokkabuxur, bolur, peysa og buxur.
  • Þau börn sem nota bleiur koma með þær að heiman sem og blautþurrkur.

Óhöpp, slys og veikindi

Börn í leikskólum Kópavogsbæjar eru slysatryggð á meðan þau dvelja í leikskólanum. Ef barn verður fyrir slysi, eða veikist, er haft samband við foreldra. Þess vegna er mikilvægt að allar upplýsingar um símanúmer séu réttar. Trygging tekur ekki til óhappa sem verða á fötum barnsins eða á öðru sem það hefur með sér í leikskólann.

Ef barnið þarf að taka lyf er mikilvægt að haga lyfjagjöfinni þannig að lyfin séu gefin heima, en ekki í leikskólanum nema það sé óhjákvæmilegt.

Ætlast er til að börnin taki þátt í því starfi sem fram fer í leikskólanum alla daga, inni og úti en ef foreldrar telja nauðsynlegt að barnið sé inni eftir veikindi er bent á að hringja í skólann áður en komið er og athugað hvort hægt sé að koma því við. Fjarveru barna á að tilkynna.

Breytt heimilisfang og breytingar á högum

Foreldrum er skylt að tilkynna leikskóla breytingar á högum sínum svo sem breytt heimilisfang, símanúmer, vinnusíma og breytta hjúskaparstöðu. Einnig er mikilvægt að foreldrar láti deildarstjóra vita um alvarleg veikindi eða dauðsfall í fjölskyldu barnsins.