Frumkvæði, vinátta og gleði

 

Frumkvæði, vinátta og gleði eru einkunnarorð skólans. Frumkvæði ýtir undir skapandi hugsun og gerir börnunum kleift að leita sjálf lausna í þeim verkefnum sem þau fást við hverju sinni. Það hjálpar þeim að leysa sjálf deilur á jákvæðan hátt. Vinátta, samkennd, góð samskipti, samhjálp og samvinna eru þættir sem ýtt er undir og lögð er áhersla á. Gleði er þriðja einkunnarorð skólans. Börn eru í eðli sínu glöð. Með áherslu á frumkvæði og vináttu, skýrar reglur og aga er skapað öruggt umhverfi, sem eykur vellíðan og ánægju einstaklingsins og hópsins í heild. Í tengslum við einkunnarorð skólans er lögð áhersla á iðkun dyggða. Unnið er sérstaklega með hverja dyggð u.þ.b. sex vikur í senn þar sem börn og kennarar tileinka sér þær. Þau ræða saman um dyggðirnar, syngja lög og lesa bækur sem tengjast þeim.