Öryggismál

Í Arnarsmára er mikið lagt upp úr öryggismálum og forvörnum bæði hvað varðar börn, starfsfólk, húsnæði og lóð.

Ferðir
Mikið er um að börnin fari í ýmsar lengri og skemmri vettvangsferðir, bæði í litlum og stórum hópum. Börnin nota alltaf endurskinsvesti í gönguferðum og þegar farið er með rútu er skilyrði að í henni séu öryggisbelti.

Öryggisnefnd
Öryggisnefnd er starfandi við skólann. Hlutverk hennar er að fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna sé í lagi. Ef forráðamenn sjá eitthvað sem betur mætti fara, eru þeir vinsamlegast beðnir að hafa samband við leikskólastjóra eða deildarstjóra.

Eftirlit úti og inni
Deildir leikskólans skiptast á að sinna inni - og útieftirliti til að tryggja öryggi barnanna og er leikskólalóðin yfirfarin á hverjum morgni. Heilbrigðiseftirlit hefur eftirlit með að þrif og viðhald á húsnæði sé í lagi og Gámesáætlun í eldhúsi sé virk. Kópavogsbær er með starfsmann sem tekur út lóð hvers leikskóla og leiktæki nokkrum sinnum á ári. Einnig fer fram skoðun viðurkenndra úttektaraðila á lóð og leiktækjum árlega.

Áfallaráð
Lögð er áhersla á að starfsfólk leikskólans bregðist rétt við ef áfall eða náttúruvá ber að höndum. Áfallaráð leikskólans skipa leikskólastjóri og þrír kennarar. Mikilvægt er að forráðamenn láti deildarstjóra vita ef alvarleg veikindi eða dauðsfall verður í fjölskyldu barnsins.

Skyndihjálp og brunaæfing
Í skólanum er til ítarleg vinnulýsing um hvernig skal bregðast við ef barn verður fyrir slysi, allir starfsmenn fara á skyndihjálparnámskeið á þriggja ára fresti. Einnig er til neyðaráætlun ef eldur kemur upp. Á hverju hausti er farið yfir þessar vinnulýsingar og einu sinni á ári er brunaæfing á skólatíma.

Upplýsingaöryggisstefna Arnarsmára