Í Arnarsmára er stuðlað að því að börnin verði sjálfstæðir, gagnrýnir, virkir og ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Börnin þurfa að njóta sín sem einstaklingar í barnahópnum, öðlast sjálfstraust, jákvæða sjálfsmynd og sterka sjálfsvitund. Þau þurfa að læra að vinna með öðrum, eignast vini, sýna tillitssemi og öðlast heilbrigða samkennd.

Skólinn

Við mótun starfsins á upphafsári skólans var kennurunum vinátta barna hugleikin og ákveðið var að vinna að mótun þeirrar stefnu. Skipulag og fyrirkomulag miðaði að því að koma þeirri áætlun í framkvæmd, m.a. með því að halda vinafundi alla daga á öllum deildum skólans . Á vinafundunum er rætt um veðrið og hvernig þurfi að klæða sig, viðfangsefni sem eru í boði eru kynnt fyrir börnunum og þau velja samkvæmt því. Einnig er athugað hvort einhver sé veikur og þá er hugsað fallega til hans og sungið vinalagið:

                                            Við erum góð, góð hvert við annað,
                                            stríðum aldrei eða meiðum neinn.
                                            Þegar við grátum, huggar okkur einhver,
                                            þerrar tár og klappar okkar kinn.

Markmiðið með því að leggja sérstaka rækt við vináttu og samkennd er að koma í veg fyrir einelti og að börn og fullorðnir temji sér virðingu fyrir öðrum í leik og starfi.

Einkunnarorð leikskólans eru frumkvæði, vinátta og gleði og lögð er rík áhersla  á að vinna markvisst að  þeim.

Frumkvæði í hugsun, leik og starfi. Ýtt er undir skapandi hugsun þannig að börnin leiti sjálf lausna í verkefnum þeim er þau fást við hverju sinni, að þau leysi sjálf deilur á jákvæðan hátt og þau eru hvött til sjálfshjálpar.

Vinátta, samkennd, góð samskipti, samhjálp og samvinna eru þættir sem ýtt er undir og lögð er áhersla á .

Gleði er þriðja einkunnarorð skólans. Börn eru í eðli sínu glöð. Með áherslu á frumkvæði og vináttu, skýrar reglur og aga er skapað öruggt umhverfi, sem þýðir vellíðan og ánægju einstaklingsins og hópsins í heild.

Gaman saman

Liður í að stuðla að samvinnu, samkennd og vináttu í barnahópnum er að eiga góða stund saman. Öll börnin í skólanum koma saman á föstudögum. Deildirnar skiptast á um að skipuleggja þessa stund, stjórna söng og vera með ýmsar uppákomu.

Leikurinn

Í bernsku er það að leika sér það sama og að læra og afla sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur barnsins er talinn „leikur leikjanna.” Í frjálsum leik er barnið að skapa leikinn úr eigin hugarheimi, það tekur ákvarðanir á eigin forsendum og lærir að leita lausna. Í leik er barnið einbeitt og það er upptekið af augnablikinu. Fjölþætt upplifun elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni.

Sköpunarþörf, virkni og hugmyndaflug barna birtast í leikjum þeirra. Í leikjum fá börnin hreyfiþörf sinni fullnægt og þau þjálfa hreyfingar sínar og líkamsstjórn. Í þykjustu- og hlutverkaleikjum og öðrum samleikjum lærist börnum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars á jafnréttisgrundvelli. Í leik öðlast börnin samkennd og vináttu. Í skipulögðum leikjum og regluleikjum læra þau einfaldar samskiptareglur og að virða rétt annarra, í slíkum leikjum vaknar og þróast lýðræðisvitund þeirra.

Í Arnarsmára eiga að vera skilyrði til að börnunum líði vel, góður tími er gefinn til að leyfa leiknum að njóta sín, glaðværð og góður starfsandi fyrir alla.

Leikurinn er börnunum bæði nám og starf. Um leið er hann undirbúningur fyrir lífið sjálft. Skipulag og búnaður á að stuðla að fjölbreyttum leik barnanna, vekja forvitni þeirra, frumkvæði, virkni og gleði og efla sjálfstæði þeirra.

Frjáls leikur er aðalatriði í öllu starfi í Arnarsmára, þar sem ímyndunarafl og sköpunargleði barnanna fær að njóta sín. Lögð er áhersla á að leikföng og efniviður sé opinn, sveigjanlegur og skapandi og bjóði upp á fleiri en eina leið/lausn. Með því er ýtt við undir frumkvæði barnanna.

Einingakubbar og holukubbar skipa þar stóran sess, leikur með þá eflir alla þroskaþætti hjá barninu og hvetur það til stærðfræðileikja og sjálfstæðrar hugsunar.

Þema

Í leikskólanum er unnið með ákveðið efni eða þema og er það hluti af ársáætlun. Unnið er með þemað á margbreytilegan hátt og börnin læra að nota skilningarvit sín. Ýmsar vinnuaðferðir eru notaðar til að nálgast viðfangsefnið.

Í Arnarsmára skiptum við árinu upp í þematímabil:

sept. – okt. - náttúran, haustið og litirnir
okt. – nóv. - ég sjálfur og fjölskyldan
desember - jólin
jan. - mars - samfélagið fyrr og nú
apr. - maí - náttúran, vorið, húsdýrin

Ég sjálfur er þema allt árið með yngstu börnunum.

Í hópavinnu, á vinafundum, í útiveru, í vettvangsferðum og fleiru er unnið með þemað.

Markmiðið með því að hafa fast þema er að með því er öllum þroskaþáttum sinnt og nálgun að þemanu getur orðið fjölbreytt.

Jafnrétti

Áhersla er lögð á að börn af báðum kynjum leiki sér saman, rannsóknir sýna að börn sem gera það eru félagslega þroskaðri en börn sem leika sér aðeins við börn af sama kyni og þau eru sjálf.

Gerð hefur verið jafnréttisstefna fyrir leikskóla Kópavogs.

Gengið er út frá eftirfarandi grundvallaratriðum:

1. Samstaða og jákvæð samskipti/samvinna kynja er leið til jafnréttis.
2. Stúlkur og drengir eiga sama rétt og hafa sömu skyldur.
3. Karlar og konur eiga sama rétt og hafa sömu skyldur.