Frumkvæði, vinátta og gleði

 

Frumkvæði, vinátta og gleði eru einkunnarorð skólans. Frumkvæði ýtir undir skapandi hugsun og gerir börnunum kleift að leita sjálf lausna í þeim verkefnum sem þau fást við hverju sinni. Það hjálpar þeim að leysa sjálf deilur á jákvæðan hátt. Vinátta, samkennd, góð samskipti, samhjálp og samvinna eru þættir sem ýtt er undir og lögð er áhersla á. Gleði er þriðja einkunnarorð skólans. Börn eru í eðli sínu glöð. Með áherslu á frumkvæði og vináttu, skýrar reglur og aga er skapað öruggt umhverfi, sem eykur vellíðan og ánægju einstaklingsins og hópsins í heild. Í tengslum við einkunnarorð skólans er lögð áhersla á iðkun dyggða. Unnið er sérstaklega með hverja dyggð u.þ.b. sex vikur í senn þar sem börn og kennarar tileinka sér þær. Þau ræða saman um dyggðirnar, syngja lög og lesa bækur sem tengjast þeim.

Í leikskólastarfinu mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild þar sem börnum er sýnd virðing og umhyggja. Unnið er eftir uppeldisstefnu sem nefnist Uppbygging sjálfsaga-Uppeldi til ábyrgðar, sem miðar að því að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga.

Frjáls sjálfsprottinn leikur er kjarninn í öllu starfi Arnarsmára og er honum gefinn góður tími. Leikurinn er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Lögð er áhersla á opinn efnivið sem ýtir undir ímyndunarafl barnanna, þ.e. skapandi leikefni sem gefur ekki aðeins eina lausn.

Útinám/útivera: Daglega er mikil útivera í Arnarsmára. Hún býður upp á góða hreyfingu, er börnum holl, eykur hreysti og mótstöðuafl. Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms; allt sem hægt er að læra inni er einnig hægt að læra úti. Börnin komast í meiri tengsl við náttúruna og læra að bera virðingu fyrir umhverfinu. Útinámið tengist gjarnan því námsefni/þema sem verið er að vinna með í skólanum hverju sinni. Öll börn í Arnarsmára fara a.m.k. í eina vettvangsferð í viku.

Arnarsmári er Grænfánaskóli og er því mikið í endurvinnslu og umhverfisvernd. „Við berum öll virðingu fyrir sjálfum okkur og náttúrunni og sýnum það í verki.“