Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna
 Réttindaskóli UNICEF

Leikskólinn Arnarsmári er einn af fimm leikskólum í Kópavogi sem er þátttakandi í verkefninu Réttindaskóli UNICEF, samstarfsverkefni við UNICEF á Íslandi. Sem Réttindaskóli UNICEF er unnið eftir gildum og stefnu Barnasáttmálans og þannig er lögð áhersla á að skapa börnum umhverfi til þátttöku og þar með að auka jafnrétti og virðingu. Meginmarkmið þessa verkefnis er að börn og fullorðnir:

  • Þekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og efni hans
  • Viti að börn eiga sjálfstæð réttindi
  • Átti sig á að börn þurfa sérstaka vernd og umönnun umfram þá sem fullorðnir eru
  • Viti að börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif
  • Skilji að Barnasáttmálinn kveður á um jafnræði allra barna.

Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgagnspunktur allra ákvarðana skólans, auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, kennara og annarra starfsmanna. Börn tileinka sér siðferðisleg gildi og staðla fyrst og fremst gegnum áþreifanlegar upplifanir. Framkoma fullorðinna hefur áhrif á skilning barna og virðingu fyrir réttindum og þeim reglum sem gilda í lýðræðislegu samfélagi. Hinir fullorðnu eru mikilvæg fyrirmynd og leikskólakennarar eru ábyrgir fyrir að virða og uppfylla þarfir hvers barns. Börnum skal gefið tækifæri til að þroska færni sína til að uppgötva, velta fyrir sér og taka afstöðu. 

Barnasáttmálinn hefur að geyma 54 greinar sem snúa allar að réttindum barna. Í Arnarsmára verður lögð sérstök áhersla á eftirfarandi fjórar greinar sáttmálans:

2. grein    Jafnræði — bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

3. grein    Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

6. grein    Réttur til lífs og þroska
Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

12. grein    Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

Gerðar eru þær kröfur til réttindaskólanna að við lok verkefnisins hafi:

· Meirihluti barnanna fræðst um réttindi sín í gegnum fjölbreytt verkefni.

· Starfsfólk aukið verulega við þekkingu sína á Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og geti unnið sjálfstætt með réttindi barna í stefnumótun og ákvarðanatöku, sem og í kennslu og almennu starfi með börnum.

Réttindatré með réttindalaufum.

Vinasól.   

Hvernig tilfinning er það að sjá ekki?