Haustið 2016 gerðist Arnarsmári Sólblómaleikskóli. Í því felst að leikskólinn styrkir annaðhvort eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi eða styrkir samtökin á annan hátt.

Ákveðið var að styrkja eitt ákveðið barn og fyrir valinu varð hún Cristiana Larose, sem er kölluð Kikina og býr í SOS barnaþorpinu Bouar í Mið-Afríkulýðveldinu. Hún er fædd 1.10.2019. Hún flutti í þorpið af því hún átti enga foreldra, en nú er hún búin að eignast SOS mömmu sem hún elskar mjög mikið af því hún er svo góð. Henni finnst skemmtilegast að borða og labba um í garðinum. Öllum þykir vænt um hana og vilja alltaf leika við hana. Hún á fallega dúkku sem hún leikur sér með alla daga og hún á líka lítinn, fínan stól. Hún hreyfir sig mjög mikið allan daginn og er mjög hraust og alltaf brosandi.

Sólblómaleikskólar fá tilbúið efni frá SOS Barnaþorpunum, til að mynda plaköt þar sem mismunandi lönd eru kynnt og saga ákveðinna barna í barnaþorpum sögð, stuttmyndir, sólblómafræ til að sá og margt fleira. Fræðsluefnið stuðlar að því að börnin á Sólblómaleikskólum fræðast um börn í öðrum löndum, hvernig þau búa við aðrar aðstæður og hvernig aðstæðurnar eru sambærilegar. Börnin fræðast um önnur lönd og aðra menningarheima og læra hversu mikilvægt það er að bera virðingu fyrir öðrum þó svo að lifnaðarhættir og aðstæður séu öðruvísi en þau þekkja í sínu umhverfi.

Viðurkenning