The power of reading

Arnarsmári hefur hlotið Erasmus+ styrk frá Evrópusambandinu ásamt leikskólum í fimm öðrum löndum til að vinna saman að verkefni varðandi læsi. Verkefnið fer fram á ensku og heitir „The power of reading“.
Löndin sem taka þátt í verkefninu ásamt Íslandi eru; Spánn, Ítalía, Króatía, Grikkland og Eistland. Spánverjar eru stjórnendur verkefnisins og halda utan um það.
Verkefnið er til tveggja ára og hófst formlega 1. desember 2020. Í verkefninu munu skólar í hverju landi fyrir sig kynna hvernig unnið er með læsi. Hlutverk kennara Arnarsmára í verkefninu er að kynna fyrir erlendu kennurunum samræðulestur og hvernig unnið er með læsi í útikennslu.

Í skipulagi verkefnisins var gert ráð fyrir að samstarfsskólarnir kæmu í heimsókn í Arnarsmára í febrúar. Vegna ástandsins í heiminum var það ekki hægt þannig að þess í stað var kynning á netinu. Allar þjóðirnar í verkefninu voru með kynningu á sínum skólum. Frá Arnarsmára voru sýnd video þar sem fram kemur hvað Arnarsmári stendur fyrir og hvernig unnið er með börnin. Einnig var sagt frá skólakerfinu á Íslandi. Það voru tveir fyrirlestrar sem tengjast sérstöðu Arnarsmára varðandi útikennslu og samræðulestur. Eftir fyrirlestrana voru almennar umræður um efnið og spurningum svarað sem upp komu í tengslum við fyrirlestrana og Arnarsmára. Kynningarnar gengu mjög vel og vonandi koma samstarfsskólarnir til með að geta nýtt sér kennsluaðferðir Arnarsmára og að það auki við fjölbreytileika í kennslu hjá þeim. Næst verða Spánverjar með kynningu á þeirra sérstöðu varðandi verkefnið. Sú kynning er áætluð í maí.

Öll verkefni í Erasmus+ þurfa að vera með sitt logo. Þetta logo var gert í Eistlandi og stendur fyrir verkefnið The Power of Reading