Vinátta er forvarnarefni frá Barnaheill, sem ætlað er að koma í veg fyrir að einelti þróist í barnahópum í leik- og grunnskólum. Efnið á að stuðla að öruggu, jákvæðu og heilbrigðu lífi fyrir börn í leik- og grunnskóla með því að byggja upp jákvæð samskipti, umhyggju og vináttu.

Einelti getur átt sér stað í leikskólum og því er mikilvægt að hafa afskipti snemma og hefja forvarnarstarf til að koma í veg fyrir einelti. Vinátta er góð leið til þess.

Markmið Vináttu - verkefnisins er:

  • að samfélagið í leikskólanum einkennist af umburðarlyndi og virðingu
  • að skapa umhverfi þar sem börn sýna hvert öðru umhyggju
  • að börn læri að bregðast við neikvæðri hegðun og einelti
  • að virkja einstaklinga og gefa þeim hugrekki til að grípa inn í og verja félaga sína

Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu og litlu hjálparbangsarnir eru ætlaðir hverju barni. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og vera góðir félagar.

Það er lykilatriði fyrir árangur að börn, foreldrar og starfsfólk vinni saman til að koma í veg fyrir einelti. Hvatt er til samtala og leikja með börnum sem byggja á gildum verkefnisins; umhyggju, virðingu, umburðarlyndi og hugrekki. Gert er ráð fyrir fjölbreyttum vinnubrögðum, svo sem hlustun, umræðu og tjáningu í leik, jafnt úti sem inni.

Umburðarlyndi Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.

Umhyggja Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Lögð er sérstök áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti og hvetja þau til að bregðast við því.

Námsefnið                    

Allt námsefnið sem notað er í Vináttu er að finna í sérstökum töskum. Efni fyrir 0-3 ára er í einni tösku og efni fyrir 3-6 ára er í annarri. Þar eru verkefni og annað efni ætlað börnum, foreldrum, kennurum og öðru starfsfólki. Hver skóli útfærir efnið út frá eigin stefnu og sérstöðu. Mikilvægt er að öll börn fái tækifæri til að nýta styrkleika sína og leggja sitt af mörkum til að vera góður félagi og sýna vináttu, umhyggju, virðingu og hugrekki.

Öll börn í Arnarsmára eiga sinn hjálparbangsa í leikskólanum og taka þátt í Blæstund í hverri viku, en umræðu um vináttu er haldið á lofti alla daga. Þegar börnin svo hætta í leikskólanum þá fá þau hjálparbangsann heim með sér.