The power of reading

Arnarsmári hefur hlotið Erasmus+ styrk frá Evrópusambandinu ásamt leikskólum í fimm öðrum löndum til að vinna saman að verkefni varðandi læsi. Verkefnið fer fram á ensku og heitir „The power of reading“.

 

Löndin sem taka þátt í verkefninu ásamt Íslandi eru; Spánn, Ítalía, Króatía, Grikkland og Eistland. Spánverjar eru stjórnendur verkefnisins og halda utan um það.

 

Öll verkefni í Erasmus+ þurfa að vera með sitt logo. Þetta logo var gert í Eistlandi og stendur fyrir verkefnið The Power of Reading.



Verkefnið er til tveggja ára (framlengt um eitt ár vegna Covid-19) og hófst formlega 1. desember 2020. Í verkefninu munu skólar í hverju landi fyrir sig kynna hvernig unnið er með læsi. Hlutverk kennara Arnarsmára í verkefninu er að kynna fyrir erlendu kennurunum samræðulestur og hvernig unnið er með læsi í útikennslu.

 

Í skipulagi verkefnisins var gert ráð fyrir að samstarfsskólarnir kæmu í heimsókn í Arnarsmára í febrúar 2021. Vegna ástandsins í heiminum var það ekki hægt þannig að þess í stað var kynning á netinu. Allar þjóðirnar í verkefninu voru með kynningu á sínum skólum. Frá Arnarsmára voru sýnd video þar sem fram kemur hvað Arnarsmári stendur fyrir og hvernig unnið er með börnin. Einnig var sagt frá skólakerfinu á Íslandi. Það voru tveir fyrirlestrar sem tengjast sérstöðu Arnarsmára varðandi útikennslu og samræðulestur. Eftir fyrirlestrana voru almennar umræður um efnið og spurningum svarað sem upp komu í tengslum við fyrirlestrana og Arnarsmára. Kynningarnar gengu mjög vel og vonandi koma samstarfsskólarnir til með að geta nýtt sér kennsluaðferðir Arnarsmára og að það auki við fjölbreytileika í kennslu hjá þeim.

 

Í febrúar 2023 gátum við svo tekið við samstarfsskólunum í heimsókn. Í þessari heimsókn fengum við meðal annars Eyrúnu Ísfold Gísladóttir annan höfund efnisins "Lubbi finnur málbein" til að halda fyrirlestur um efnið og gestirnir okkar fengu einnig að vera með okkur á Stóra læsisdeginum og fylgjast með hvernig hann fer fram. Við kynntum einnig fyrir þeim Uppbyggingarstefnuna og sögupokana okkar og allar þjóðirnar fengu að búa til sögupoka til að taka heim í sinn skóla. Við ætluðum einnig að taka þau með okkur í vettvangsferð og sýna þeim hvernig við vinnum með læsi í ferðum, en þar sem veðrið þann daginn bauð ekki uppá það héldum við í staðin stuttan fyrirlestur um hvernig við vinnum með læsi í ferðum. Þessi heimsókn heppnaðist mjög vel og fóru allir sáttir heim.

 

Hér fyrir neðan eru svo stuttar skýrslur frá heimsóknum okkar til skólanna fimm sem voru með okkur í verkefninu:

 

Eistland nóvember 2021

Ítalía mars 2022

Krít maí 2022

Króatía október 2022

Spánn maí 2023

 

Verkefninu lauk formlega í ágúst 2023. Útkoman úr verkefninu var mjög góð og voru allir aðilar verkefnisins hæstánægðir með hvernig til tókst í verkefninu, þrátt fyrir ýmsar takmarkanir vegna Covid-19 faraldursins. Niðurstöður kannana sem teknar voru sýndu aukningu í lestri og áhuga á lestri hjá kennurum, börnum og foreldrum. Kennarar frá öllum löndunum fengu góðar hugmyndir hver frá öðrum og eru farnir að nýta sér margar af þeim nú þegar.

 

Lokaafrakstur verkefnisins er svo bók sem inniheldur ýmsar upplýsingar um verkefnið, þátttökuskólana og einnig eru í bókinni læsistengd verkefni frá hverjum skóla. Bókina er hægt að lesa með að smella á myndina hér fyrir neðan.

 


Hérna má svo finna grein sem skrifuð var í Kópavogspóstinn um vekefnið.