Mál og lestrarhæfni er viðfangsefni allra barna og mikilvægt samfélagslegt verkefni. Börn fá í vöggugjöf hæfileikann til þess að læra mál. Hversu vel hann nýtist fer eftir því hversu mikla og fjölbreytta málörvun þau fá í uppvexti sínum. Snemmtæk íhlutun er forsenda þess að efla börn á fyrstu stigum læsisnáms og koma þannig í veg fyrir námserfiðleika og neikvæða upplifun af skólagöngu seinna meir. Stefna Kópavogs um mál og lestur gerir ráð fyrir að unnið sé út frá fimm grunnþáttum lestrar: Hljóðkerfis – og hljóðvitund, lesfimi, lesskilningi, orðaforða og hljóðrænni umskráningu.

Veturinn 2016-2017 voru leik- og grunnskólar Kópavogs í þróunarverkefni um mál og lestur og hver skóli mótaði þar eigin aðferðir til þess að ná markmiðum í stefnu Kópavogsbæjar.

Arnarsmári - skýrsla

Í Arnarsmára var þróunarverkefnið byggt á Samræðulestri í mikilli samvinnu við foreldra. Samræðulestur byggir á samræðum eins og nafnið bendir til og lögð er áhersla á að fá börnin til að segja frá með sínum orðum í bland við texta sögunnar þegar við á. Rannsóknir sýna að þegar lesið er með aðferð Samræðulesturs eykur það orðaforða, málskilning og frásagnarhæfni barnanna. Einnig er mikil áhersla lögð á Orðaspjall og Lubbi finnur málbein.
Tvo mánuði á ári, í mars og nóvember er læsisátak bæði í leikskólanum og heima. Foreldrar, í samráði við barnið sitt, eru hvattir til að fá lánaðar bækur í leikskólanum og lesa hverja bók að minnsta kosti þrisvar sinnum. Því oftar sem bækur eru lesnar og því oftar sem börn heyra ókunn orð því meiri líkur eru á að þau orð festist í minni þeirra og auki þannig orðaforða þeirra. Því fjölbreyttari orðaforða sem börn búa yfir, því auðveldara verður fyrir þau að skilja flóknari texta seinna.
Handbók um snemmtæka íhlutun í Arnarsmára er afrakstur þróunar-verkefnis um snemmtæka íhlutun í málþroska barna. Verkefnið stóð yfir frá haustinu 2017 til vors 2019 og er hugsað til að auðvelda öllum starfsmönnum leikskólans að grípa inn í sem fyrst með viðeigandi aðferðum þegar örva þarf málþroska leikskólabarna. Miðað við umræðuna í þjóðfélaginu undanfarið sem snýr að málþroska barna þá virðist vera mikil þörf á verkefni eins og þessu svo allir geti verið samtaka og unnið í anda snemmtækrar íhlutunar og verið meðvitaðir um hvað snemmtæk íhlutun snýst. Einnig hafa verið tekin saman málörvunarhefti fyrir hvern árgang í Arnarsmára. Þar kemur fram hvernig eðlilegur málþroski þróast og hvaða skimanir/prófanir/skráningar er hægt að nýta fyrir viðkomandi árgang. Einnig kemur fram hvenær þurfi að beita aðferðum sem eru byggðar á snemmtækri íhlutun og hvernig eðlilegast er að beita þeim miðað við aldur barnanna.

Hér má finna læsisstefnu Arnarsmára

Myndbönd frá Menntamálastofnun:

Læsiráð

Hvernig er mikilvægt að lesa fyrir börnin